Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 423  —  209. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um fæðingar á Íslandi.


    Kallað var eftir svörum frá Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri en þessar stofnanir bera ábyrgð á upplýsingum í fæðingaskrá. Svörin komu í ítarlegri samantekt sem fylgir fyrirspurninni sem fylgiskjal.

     1.      Hversu margar fæðingar hafa verið árlega síðastliðin tíu ár á Íslandi, sundurliðað eftir sjúkrastofnun og eftir því hvort um fyrsta barn er að ræða?
    Fæðingar á Íslandi hafa verið milli 4.000 til 4.500 síðasta áratug. Hlutfall fyrstu fæðinga (frumbyrja) af öllum fæðingum hefur hækkað í seinni tíð, sjá ítarlega sundurliðun í fylgiskjali.

     2.      Hversu mörg sjúkraflug var farið í árlega síðastliðin tíu ár vegna fæðinga eða vandkvæða eftir fæðingar?
    3,6% af öllum sjúkraflugum voru vegna meðgöngu eða fæðingar. Það er um 30 tilfelli á ári. Flest útköll voru vegna bráðs ástands á meðgöngu (t.d. meðgöngueitrunar eða blæðingar) eða vegna ,,hótandi“ fæðingar. Upplýsingar um fjölda sjúkrafluga vegna vandkvæða eftir fæðingar voru ekki aðgengilegar innan tímamarka fyrirspurnar.

     3.      Hversu margar fæðingar árlega síðastliðin tíu ár hafa verið skilgreindar sem flóknar eða erfiðar fæðingar? Er fjöldinn sambærilegur við önnur Norðurlönd?
    Skilgreina má flókna eða erfiða fæðingu á mismunandi hátt. Á Landspítala er notast við árangursmæla þar sem fæðing án fylgikvilla hefur verið skilgreind á eftirfarandi hátt: Leggangafæðing á spræku barni án áhalda og án alvarlegs spangaráverka eða spangarklippingar og án ríkulegrar blæðingar eftir fæðingu. Þegar tekið er mið af þessari skilgreiningu þá eru nú í kringum 50% fæðinga á Landspítala án inngripa og/eða fylgikvilla en hlutfallið er án efa mun hærra á öðrum fæðingarstöðum þar sem hlutfall mæðra sem hafa áhættuþætti við upphaf fæðingar er lægra. Þetta ber að túlka í því ljósi að fyrir fæðingu fer fram mat á áhættu á líkum á fósturstreitu og öðrum vandamálum sem gætu gert fæðinguna erfiðari og af sömu ástæðum er hlutfall frumbyrja einnig mismunandi eftir stöðum (sjá nánar í fylgiskjali).

     4.      Hver er þróun meðalsængurlegutíma síðastliðin tíu ár, sundurliðað eftir sjúkrastofnun? Er hún sambærileg við önnur Norðurlönd?
    Nákvæmar tölur eru ekki fyrirliggjandi á svarfresti fyrirspurnarinnar því á LSH og SAk er ekki er gerður greinarmunur á innlagnarástæðu á meðgöngu- og sængurlegudeild og teljast því með vandamál á meðgöngu, t.d. fósturlát, utanlegsþungun og meðgöngueitrun. Af þeim tölum sem fyrir liggja má sjá að meðallegutími í sængurlegu hefur styst á síðustu tíu árum og skiptir þar miklu máli heimaþjónusta ljósmæðra í sængurlegu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Tafla 1 Meðallegutími í sængurlegu (svör frá heilbrigðisstofnunum).

    OECD birtir tölur yfir legu á fæðingarstofnun vegna fæðingar sem þá tekur einnig til sængurlegu, sjá mynd út frá fyrirliggjandi gögnum frá 2022 eða nýjustu tölum hvers lands. Út frá þeim tölum sést að Ísland hefur styttri stofnanalegu vegna fæðinga og sængurlegu en þau Norðurlönd sem deila gögnum um efnið, enda hefur Ísland sérstöðu um þjónustu í sængurlegu sem er heimaþjónustu ljósmæðra.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1. Lengd legu (dagar) á fæðingarstofnun vegna fæðingar og sængurlegu 2022. (OECD).

     5.      Hversu margar fæðingar árlega síðastliðin tíu ár hafa staðið lengur yfir en 24 tíma frá því að mæður eru skráðar í innlögn? Hvernig er það samanborið við önnur Norðurlönd?
    Upplýsingar lágu ekki fyrir innan svarfrests fyrirspurnarinnar. Sjá nánar í fylgiskjali.


Fylgiskjal.


Um fæðingar.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0425-f_I.pdf